Allt styður þetta okkar málstað

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að 432 milljarða króna útgreiðsla slitastjórnar Landsbankans til kröfuhafa í bú gamla Landsbankans, væri mjög mikilvæg og hjálpaði Íslendingum í öllum málflutningi sínum á erlendum vettvangi í Icesave-málinu.

Árni Páll sagði, í svari við fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni, Framsóknarflokki, að það hefði vissulega verið mikill áfangi þegar slitastjórn Landsbankans greiddi fjárhæðina út til kröfuhafa í morgun. Um væri að ræða gríðarlega háa fjárhæð eða ríflega 80% af fjárlögum Íslands.

„Þetta hjálpar okkur í öllum okkar málflutningi á erlendum vettvangi," sagði Árni Páll. „Það er mjög mikilvægt að menn sjái að athafnir fylgja orðum og við segjumst ekki aðeins ætla að borga heldur fari peningarnir til kröfuhafanna."

Árni Páll sagðist hafa talað við á þriðja tug erlendra kollega sinna á síðustu mánuðum og hjá engum þeirra hefði hann fundið skilning á því að Íslendingar skulduðu Bretum og Hollendingum fé.

Hann sagði að íslensk stjórnvöld hefðu sagt Eftirlitsstofnun EFTA, (ESA) að engin rök væru fyrir því að þetta mál ætti að ganga lengra fyrir dómstólum og því ætti að fella það niður. Nú yrði upplýsingum um útgreiðslurnar komið til ESA og einnig upplýsingum um dóm Hæstaréttar í október.

Árni Páll sagði að Hæstiréttur hefði einnig lagt málsvörn Íslands lið með dómnum því þar var kveðið á um tiltekna vexti til innistæðueigendanna. Því væri ekki hægt að halda því fram að krafan bæri enga vexti, þótt þeir væru ekki sérstaklega háir. 

„Allt styður þetta þann málstað okkar að ekki eigi að halda áfram með málið," sagði Árni Páll. „Ef það er þannig, eins og nú virðist liggja ljóst fyrir að þrotabúið muni standa undir öllum þessum kröfum vegna innistæðna og einhverjum vöxtum, þá sé ég ekki á hvaða grunni sé hægt að reka mál frekar fyrir EFTA-dómstólnum. Því það getur ekki verið hlutverk EFTA-dómstólsins að taka að sér hlutverk einhverskonar innheimtuaðila og úrskurða um vaxtafjárhæð, ef það liggur fyrir að krafan verður greidd með einhverjum vöxtum."

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. mbl.is/GSH
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert