30-60% verðmunur á jólabókum

mbl.is/Kristinn

Verðlagseftirlit ASÍ, sem gerði nýverið verðsamanburð á jólabókum í 12 bókabúðum og dagvöruverslunum, segir að mikill verðmunur sé á milli verslana. Í tilvikum hafi hann verið 30-60%. Lægsta verðið hafi oftast verið að finna í Bónus, eða á 25 titlum af 63.

Segir að Bónus hafi jafnframt verið með fæsta bókatitla á boðstólum eða aðeins 29 af þeim 63 sem skoðaðir voru. Hæsta verðið var oftast að finna í bókabúðinni Iðu Lækjargötu eða í um helmingi tilvika. Bókabúðin Penninn-Eymundsson neitaði þátttöku í könnuninni.

Fram kemur í tilkynningu að samanburðurinn hafi verið gerður í verslununum sl. þriðjudag víðsvegar um landið.

Sem fyrr segir var Bónus oftast með lægsta verðið. Þar á eftir var Bóksala stúdenta með lægsta verðið á 16 titlum af 63. Iða Lækjargötu var oftast með hæsta verðið í könnuninni á 32 titlum af 63. A4 Smáratorgi og Mál og menning Laugavegi voru með hæsta verðið á 29 titlum af 63.

„Mestur verðmunur í könnuninni var á sögubókinni Dauðinn í Dumbshafi, sem var á á 4.193 kr. í Bónus en dýrust var hún í Hagkaupum á 6.980 kr. sem er 2.787 kr. verðmunur eða 66%. Þýdda skáldverkið Djöflanýlendan var á lægsta verðinu hjá Nettó á 3.518 kr. en dýrust hjá Máli og menningu á 5.790 kr. sem er 2.272 kr. verðmunur eða 65%. Einnig var mikill verðmunur á matreiðslubókinni Eldum íslenskt með kokkalandsliðinu. Hún kostaði 3.241 kr. í Bónus en var dýrust í Hagkaupum á 5.199 kr. sem er 1.958 kr. verðmunur eða 60%.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á hljóðbókinni Sólskinsbarn eftir Huldu Ólafsdóttur sem kostaði ýmist 2.490 kr. eða 2.499 kr. þar sem hún var fáanleg. Mun meiri verðmunur var á ljóðabókinni Ísafjörður ægifagur sem var á lægsta verðinu hjá Office 1 2.039 kr. en dýrust hjá Griffli á 2.207 kr. sem var 8% verðmunur,“ segir í tilkynningu.

Nánar á vef ASÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert