Grindavíkurbær er á kafi í snjó en þar hefur snjóað látlaust síðan í gær. Á vef bæjarins segir, að snjóruðningstæki hafi ekki undan og mokað hafi verið nánast í alla nótt. Alls séu 5-6 tæki í snjómokstri. Bílar voru fastir víða um bæinn í morgun.
Lögð hefur verið áhersla á að halda helstu umferðargötum opnum þannig að fært sé að Grindavíkurvegi, skólum, leikskólum, slökkviliðsstöð, heilbrigðisstofnun, niður að höfn, og ákveðinn öryggishring sem nýtist flestum bæjarbúum.