„Eins og staðan er núna eru allar líkur á því að við opnum um helgina. Það er að bæta í snjóinn og lítur þokkalega út,“ segir Gunnar Björgvinsson hjá skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Þar búa menn sig nú undir að skíðavertíðin hefjist af fullum krafti um helgina, en sala vetrarkorta hófst í dag.
Að sögn Gunnars má gera ráð fyrir því að skíðasvæðið í Bláfjöllum verði opnað á laugardag kl. 10 og verði opið til 18 ef veður leyfir. „Það yrði þá opið í allar helstu lyftur í Kóngsgili og í diskalyftur á Suðurgilssvæðinu,“ segir Gunnar. Göngubraut um leirurnar er nú þegar opin, en aðeins hefur vantað upp á snjó til þess að færið sé með besta móti í brekkunum. Það virðist nú standa til bóta.
Vetrarkort í Bláfjöll er hægt að nálgast í Hinu húsinu frá og með deginum í dag en þau verða einnig seld í Bláfjallaskála þegar opnað verður.