Samtök verslunar og þjónustu telja innflutningsbann stjórnvalda á fersku kjöti, mjólk og eggjum ganga gegn ákvæðum EES-samningsins.
Fram kemur í tilkynningu að samtökin hafi í fyrradag (6. desember) sent kvörtun til umboðsmanns Alþingis og Eftirlitsstofnunar EFTA vegna innleiðingar stjórnvalda á reglugerð ESB um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla.
SVÞ segja í tilkynningu að í október 2007 hafi verið tekin ákvörðun um innleiðingu reglugerðarinnar í EES-samninginn og á árunum 2008-2009 hafi verið lögð fram lagafrumvörp vegna innleiðingar á umræddri reglugerð. Meðal þess sem lagt var til var að innflutningur á vörum sem áður hafði verið óheimilaður (s.s. kjöt, mjólk og egg) yrði heimilaður í samræmi við heilbrigðiskröfur EES-löggjafar. Hins vegar hafi þessi frumvörp ekki náð fram að ganga. Árið 2009 hafi núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagt fram nýtt frumvarp sama efnis þar sem þó hafi verið gerð sú breyting að ekki yrði aflétt framangreindu innflutningsbanni. Frumvarpið var síðar samþykkt án frekari breytinga hvað þetta varðar. Hafi ráðherra talið þetta bann fyllilega standast ákvæði EES-samningsins og kæmi til þess að eftirlitsaðilar eða aðrir dragi það í efa þá myndi því vera mætt af einurð.
Ótvírætt brot
„Samkvæmt núgildandi lögum er því viðhaldið innflutningsbanni á fersku kjöti og skal allt kjöt sem flutt er til landsins því vera frosið. Frysting í sjálfu sér getur ekki talist viðurlög í lagalegum skilningi en hún rýrir verðgildi kjötsins hjá rekstraraðilum og því ígildi efnahagslegra viðurlaga. Þá gengur bann þetta gegn ákvæðum EES-samningsins varðandi frjálsa vöruflutninga. Þessu til viðbótar felur eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi á kjöti í sér landamæraeftirlit sem er ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins.
Ekkert hefur komið fram í máli þessu að íslenskum stjórnvöldum verði ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafa stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti. Þess ber að geta að samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar. Þá skal áhættumat byggjast á fyrirliggjandi vísindalegum heimildum og skal framkvæmt á sjálfstæðan, hlutlausan og gagnsæjan hátt.
Er það mat SVÞ að framkvæmd þessi sé ótvírætt brot gegn ákvæðum EES-samningsins og komið hafi verið á, eða viðhaldið, viðskiptahindrunum sem ekki á nokkurn hátt eru í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins gagnvart EES-samningnum,“ segir í tilkynningu.