Barnsmóðir þarf að endurgreiða dánarbúi lán

Hæstiréttur
Hæstiréttur mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Kona sem var í óskráðri sambúð með Gísla Þór Reynissyni kaupsýslumanni, sem lést árið 2009, þarf að greiða dánarbúi Gísla Þórs 35 milljónir króna vegna láns sem dánarbúið segir Gísla Þór hafa veitt henni árið 2007 vegna kaupa hennar á sumarbústað og láns sem þau Gísli Þór höfðu tekið hjá Landsbankanum. Konan og Gísli eiga tvö börn saman.

Dánarbúið krafði konuna um greiðslu skuldar vegna láns sem það hélt fram að Gísli Þór hefði veitt henni á árinu 2007 vegna kaupa hennar á sumarbústað og vegna greiðslu á láni þeirra hjá Landsbankanum. Í málinu lágu ekki fyrir skriflegir lánssamningar.

Hæstiréttur taldi fram komið að Gísli hefði lánað barnsmóður sinni umrædda fjárhæð. Hæstiréttur taldi konuna hvorki hafa fært rök fyrir sjónarmiðum um að líta bæri svo á að fjárhæðin hefði verið ígildi framlags Gísla til sameiginlegrar eignamyndunar þeirra eða einhvers konar ráðskonulaun til handa henni né að sýkna bæri hana af kröfum dánarbúsins. Var því fallist á kröfu dánarbús Gísla Þórs og konan dæmd til að endurgreiða lán það er um ræddi í málinu.

Sumarbústaður skráður á hennar nafn

Konan og Gísli Þór voru í óskráðri sambúð frá lokum níunda áratugar síðustu aldar allt til andláts hans. Þau áttu saman tvö börn og hélt konan því fram að fjárhagur þeirra hefði verið sameiginlegur um margt. Gísli Þór og endurskoðandi hans hafi annast gerð skattframtala þeirra beggja. Hafi lánveitandinn að líkindum verið svokallað aflandsfélag, Arctic Partners, en ekki Gísli Þór, enda beri skattframtöl hans með sér að peningalegar eignir Gísla Þórs hafi ekki verið slíkar á árinu 2007 að hann hafi haft fjárhagslega burði til að lána konunni svo mikið fé sem hér um ræðir.

Segir í dómi Hæstaréttar að áðurnefndur sumarbústaður var skráður á nafn konunnar á árinu 2007. Hefur hún ekki andmælt þeirri staðhæfingu áfrýjanda að hafa fengið 30.000.000 krónur frá Gísla Þór vegna kaupa hennar á bústaðnum í september 2007. Skýringar hennar á tilgreiningu í skattframtali fyrir árið 2007 á 5.000.000 króna skuld við Gísla Þór eru á hinn bóginn óljósari. Af gögnum málsins verður þó ráðið að konan og Gísli Þór voru í skuld við Landsbanka Íslands hf. á umræddu tímabili og ekki verður séð að hún hafi andmælt því að síðargreind fjárhæð hafi runnið til greiðslu skuldar hennar við bankann. Samkvæmt þessu er nægilega í ljós leitt að konan fékk umræddar 35.000.000 krónur frá Gísla Þór persónulega á árinu 2007.

Ekki með sama lögheimili

Konan og Gísli Þór voru hvorki skráð með sama lögheimili né töldu þau sameiginlega fram til skatts. Á skattframtölum þeirra beggja vegna tekjuársins 2007 voru 35.000.000 krónur tilgreindar sem lán Gísla Þórs til konunnar. Ber framtal konunnar með sér að hún hafi verið nánast tekjulaus á því ári, en af gögnum málsins er á hinn bóginn ljóst að Gísli Þór hafði þá töluvert fé umleikis. Var fjárhæð þessi einnig ítrekað tilgreind á sambærilegan hátt á síðari skattframtölum þeirra, en ekki sem gjöf svo sem bar að gera ef um óendurkræft framlag til konunnar var að ræða. Konan hefur sönnunarbyrði fyrir því að atvik hafi verið með öðrum hætti en dánarbúið fullyrðir og greinir í skattframtölum þeirra. Hefur henni ekki tekist sú sönnun. Að auki fær skuldin og ráðstöfun hennar stuðning í öðrum gögnum málsins. Ber því að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að um lán Gísla Þórs til barnsmóður sinnar hafi verið að ræða, segir í dómi Hæstaréttar en í Héraðsdómi Reykjaness var hún sýknuð af kröfu dánarbúsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert