„Ég hef ekki séð nein rök fyrir því að sameina hér efnahagsráðuneytið og fjármálaráðuneytið. Ég þarf þá að fá mjög sterk fagleg rök fyrir því ef einhverjar breytingar eiga að vera þar uppi á borðinu og ítreka aftur að það hafa ekki verið teknar neinar ákvarðanir, hvorki fyrr né nú, um það.“
Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær. Hún var að svara fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar alþingismanns um sameiningu ráðuneyta, m.a. sameiningu efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Bjarni Benediktsson alþingismaður spurði forsætisráðherra fyrr í fyrirspurnatímanum hvort hún teldi koma til greina að einn og sami ráðherrann færi með efnahagsmálin og fjármálaráðuneytið. Bæði Sigmundur og Bjarni vitnuðu til orða Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra fyrr í þessari viku um að hann teldi best að öll efnahagsmálin væru á einni hendi.
Steingrímur sagði misskilning í þessu fólginn. „Ég sagði að ég teldi það hafa verið hárrétta ákvörðun á sínum tíma að sameina öll efnahagsmál á einum stað,“ sagði Steingrímur. „Það getur eftir atvikum verið í sjálfstæðu efnahags- og viðskiptaráðuneyti eða í öðru ráðuneyti.“