Framlög til kvikmyndagerðar hækka

Ráðherra og fulltrúar kvikmyndagerðarmanna í dag.
Ráðherra og fulltrúar kvikmyndagerðarmanna í dag.

Ráðherrar fjármála og menntamála og forsvarsmenn kvikmyndagerðarmanna skrifuðu í dag undir samkomulag um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu árin 2012– 2015. Samkomulagið felur í sér að stuðningur við kvikmyndagerð á Íslandi í gegnum Kvikmyndasjóð eykst úr 452 milljónum á yfirstandandi ári í 700 milljónir árið 2015.

Einnig verður komið á fót miðastyrkjum, framlög til kvikmyndahátíða og kvikmyndahúsa, sem leggja áherslu á listrænar myndir verða aukin og veitt verður sérstakt framlag til endurnýjunar eldri mynda.

Á vef menntamálaráðuneytisins segir, að í samkomulaginu komi fram áherslur á sviði kvikmyndagerðar og kvikmyndamenningar á Íslandi, sem varða þróun styrkjakerfis á sviði kvikmyndamála, kvikmyndalæsi, kvikmyndahátíðir, framboð á kvikmynduðu íslensku efni og markaðssetningu á íslenskri kvikmyndagerð.

Einnig er fjallað um kvikmyndaarfinn, stafrænar kvikmyndir, kvikmyndamenntun og Ríkisútvarpið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert