ISAVIA gert að greiða bætur

Hæstiréttur.
Hæstiréttur. mbl.is/GSH

ISAVIA var í Hæstarétti í dag dæmt til að greiða fyrrverandi öryggisverði á Keflavíkurflugvelli 1,9 milljónir króna í miskabætur vegna ólögmætrar uppsagnar en manninum var sagt upp eftir að hann tilkynnti veikindi en mætti þrátt fyrir það á tónleika.

Maðurinn starfaði sem öryggisvörður hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. ISAVIA yfirtók  ráðningarsamning hans þegar ISAVIA tók rekstri Keflavíkurflugvallar 1. janúar 2009. Manninum var hins vegar sagt upp störfum 29. maí 2009 og leystur undan vinnuskyldu. Í uppsagnarbréfinu voru að sögn mannsins ekki tilgreindar neinar ástæður uppsagnarinnar. Á fundinum hafi honum hins vegar verið tjáð að hann hefði sést á tónleikum að kvöldi sama dags og hann hefði verið fjarverandi úr vinnu vegna veikinda. Þetta munu hafa verið tónleikar sem haldnir voru 2. maí 2009 til heiðurs minningu Rúnars Júlíussonar. 

Maðurinn hélt því fram í málinu að við flutning úr starfi hefði hann haldið öllum þeim réttindum sem hann hafði hjá fyrri vinnuveitanda og uppsögn án undanfarandi áminningar hefði því verið óheimil. Á það féllst Hæstiréttur og því hefði uppsögnin verið ólögmæt. Er þetta þvert á niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness sem sýknaði ISAVIA af kröfu mannsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert