Birna Steingrímsdóttir, sem var deildarstjóri á lyflækningadeild St. Jósefsspítala, segir að starfsfólk spítalans hafi talið að hann myndi starfa til áramóta en síðan hafi því verið tilkynnt að honum yrði lokað um síðustu mánaðamót. Síðasti sjúklingurinn yfirgaf spítalann í dag. Sá hafði neitað að yfirgefa hann en var nauðugur einn kostur. Þetta kemur fram í vikuritinu Hafnarfirði sem kom út í dag.
„Starfsfólkinu líður einfaldlega hræðilega og hér hafa menn tárast yfir örlögum þessarar stofnunar og því hversu góður vinnustaður þetta hefur verið,“ segir Birna Steingrímsdóttir, hjúkrunarfræðingur til 20 ára á St. Jósefsspítala og deildarstjóri á lyflækningadeild spítalans. „Það hafa til að mynda engir ráðamenn bæjarins séð ástæðu til að koma hingað og tala við okkur og við erum mjög svekkt yfir áhugaleysinu, og ekki munu þeir koma héðan af því síðasta vaktin er á enda runnin og kominn tími til að læsa,“ segir Birna. „Þetta hefur verið afskaplega góður vinnustaður og því alls ekki skrýtið að hér hafi tár fallið vegna þess hvernig komið er fyrir spítalanum og að menn skuli hafa brjóst í sér til að gera þetta, þekkjandi söguna á bak við spítalann nú þegar hann er 85 ára, byggður upp af St. Jósefssystrum,“ segir Birna.
Hún segir að þegar mest var á sjúkrahúsinu hafi verið um 50 sjúkrarúm og það pláss hafi alltaf verið fullnýtt en þess hafi verið gætt að aldrei þyrfti neinn að vera á göngunum.
„Við héldum reyndar að starfsemin yrði til áramóta en svo kom bara tilkynning um að loka um þessi mánaðamót og það er svo illa að þessu staðið. Engum sagt neitt, við vitum ekki einu sinni hvernig við eigum að ganga frá hinu og þessu svona á síðasta degi. En við höfum auðvitað raunar vitað hvert stefndi. Til dæmis þegar Landspítalinn í Reykjavík yfirtók allt hér 1. febrúar var 14 dögum síðar búið að loka handlækningadeildinni svo efri hæðin hér hefur verið meira eða minna tóm síðan,“ segir Birna.
Hún segir að nú verði Hafnfirðingar að sækja alla spítalaþjónustu til Reykjavíkur. Þannig hafi áður verið röntgendeild til að mynda t.d. beinbrot og slíkt, „nú eykst álagið á slysadeildina í Fossvogi þar sem álag var mikið fyrir“, segir Birna. Hún segir síðasta sjúklinginn hafa farið í dag. „Hann hefur neitað að yfirgefa spítalann en er nauðugur einn kostur,“ segir Birna.