Fram til ársins 2006 höfðu skattbreytingar litlar sem engar skattalækkanir í för með sér fyrir meginþorra Íslendinga en breytingunum frá 2006 til 2009 má hins vegar lýsa sem almennum skattalækkunum fyrir alla landsmenn.
Þetta eru meginniðurstöður erindis, sem Arnaldur Sölvi Kristjánsson flytur í málstofu Seðlabankans í næstu viku.
Fram kemur á vef Seðlabankans, að fyrir árið 2006 fólu skattabreytingar í sér lækkun á staðgreiðslu fyrir hærri tekjuhópa en hækkun fyrir lægri tekjuhópa. Þessi þróun skýrist einkum af rýrnun persónuafsláttar og vegna aukins vægis fjármagnstekna, en þær bera lægri skatt en launatekjur.
Seðlabankinn segir, að erindið byggi á tveimur ólíkum sundurgreiningum til að skýra á breytingarnar, sem hafi annars vegar orðið á skattgreiðslum og hins vegar á skattbyrði. Með því móti megi skýra þróun skattkerfisins út frá tveimur ólíkum sjónarhornum. Það geti útskýrt ósamræmi í almennri umfjöllun um þær breytingar sem orðið hafa á skattkerfinu á umræddu tímabili.