Samtök atvinnulífsins segja að tekjuspá fjárlaga 2012 sé standi á ótraustum grunni. Í tilkynningu frá samtökunum segir að „tekjuspá fjárlaga 2012, og þar með afkomuhorfur ríkissjóðs, sé afar brothætt og byggi á tilefnislausri bjartsýni um efnahagsframvinduna.“
SA segja að halli ríkissjóðs sé áætlaður 21 milljarður í fjárlögunum sem Alþingi hefur afgreitt og muni aukast um 3 milljarða frá fjárlagafrumvarpi.
„Rökstuddar ábendingar hafa komið fram um vantalin gjöld og ofáætlaðar tekjur þannig að hallinn á árinu 2012 gæti orðið meiri þegar upp er staðið. Fjárlögin einkennast af þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að leggja á nýja skatta og hækka álögur á fyrirtæki og heimili í stað þess að stuðla að stækkun skattstofna sem skapa myndu auknar tekjur fyrir ríkissjóð,“ segir í tilkynningu frá SA.
Þá segir að þrátt fyrir spá um minni hagvöxt á næsta ári en fjárlagafrumvarpið hafi byggst á sé nú gert ráð fyrir meiri tekjum ríkissjóðs. Fjárlögin geri ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga og fyrirtækja skili ríkissjóði rúmlega fimm milljörðum króna meiri tekjum en í fjárlagafrumvarpinu og að tekjur af tryggingagjaldi og veltusköttum verði tveimur og hálfum milljarði hærri.
Fram kemur að horfurnar í efnahagsmálum séu ekki sérlega bjartar. Lítill og ótraustur hagvöxtur, doði í fjárfestingum, mikið atvinnuleysi og síðast en ekki síst séu horfur í heimsbúskapnum viðsjárverðar. Nú spáir Efnahags- og þróunarstofnunin (OECD) engum hagvexti á næsta ári í evruríkjunum, 0,5% í Bretlandi, 0,7% í Danmörku, en þetta séu helstu viðskiptalönd Íslands, og 1,6% í OECD-ríkjunum í heild.