Í niðurstöðukafla dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í skattahluta Baugsmálsins segir að Jón Ásgeir Jóhannesson, Tryggvi Jónsson og Kristín Jóhannesdóttir hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar vegna þess dráttar sem orðið hefur á málinu. Er talið að drátturinn sé óréttlætanlegur og horft til hans við ákvörðun refsingar en einnig þess að skattyfirvöld hafa þegar lagt 25% álag á hækkun skattstofna hjá þremenningunum.
Dómurinn gerir fleiri aðfinnslur á málsmeðferðinni. Meðal annars segir að ákærunni í málinu fylgi skjöl í þúsundatali en ákæruvaldið hafi einungis stuðst við lítið brot af þeim við sönnunarfærslu í málinu. Því hafi augljóslega ekki verið hugað að því að fjarlægja óþörf skjöl úr rannsókninni þegar ákæra var ráðin. Það segir dómurinn að sé andsætt reglum í lögum um meðferð sakamála.
Þá sé skjalaskráin, sem fylgi gögnunum óaðgengileg og nærri ónothæf sem efnisyfirlit. „Virðist hún enda miðuð við þarfir þeirra sem söfnuðu og röðuðu skjölunum undir rannsókninni. Hefur þetta valdið dómendum og verjendum umtalsverðri fyrirhöfn og töfum, allt frá því að farið var að fjalla um réttarfarsatriði í málinu snemma árs 2009,“ segir í dómnum.
Eins og komið hefur fram sakfelldi Héraðsdómur Reykjavíkur þremenningana fyrir skattalagabrot fyrr í dag. Refsingu var hins vegar frestað og falli hún niður að einu ári liðnu haldi þau almennt skilorð.