Meirihluti þeirra, sem tóku þátt í skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2, vill að Jón Bjarnason hætti í embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Fram kemur í blaðinu að af þeim sem tóku afstöðu í könnuninni sögðust 64,3% ekki vilja að Jón sæti áfram í embættinu en 35,7% sögðust vilja að Jón sæti áfram sem ráðherra.
Stuðningur við Jón er mestur meðal þeirra sem sögðust í könnuninni styðja Framsóknarflokkinn. 46,2% þeirra sögðust styðja Jón. 37,1% stuðningsmanna Vinstri grænna, flokks Jóns, sagðist styðja Jón í embættinu, 34,5% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks og 8,3% stuðningsmanna Samfylkingarinnar.
Hringt var í 800 manns í gær og miðvikudag. Spurt var: Finnst þér að Jón Bjarnason eigi að sitja áfram sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra? 75,4% tóku afstöðu til spurningarinnar.