Ræði áhrif breytinga í ESB á aðildarumsóknina

Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar Daðason.

Utanríkismálanefnd Alþingis ákvað í morgun að halda nefndarfund opinn gestum á næstunni til þess að ræða þá stöðu sem komin er upp í Evrópusambandinu og áhrif þess á aðildarumsókn Íslendinga. Segist Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, búast við að fundurinn verði haldinn fyrir jól.afrí þingsins.

Segir Ásmundur Einar að ítrekað hafi verið farið fram á slíkan fund frá því í sumar til þess að ræða efnahagsstöðuna í Evrópu og þær breytingar sem eru að verða á ESB og evrusamstarfinu.

Lagði Ásmundur Einar ásamt flokksbróður sínum Gunnari Braga Sveinssyni og Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, fram bókun á fundi utanríkismálanefndar í morgun um að það væri óábyrgt að halda aðildarferlinu að ESB áfram án þess að farið væri ofan í atburði í Evrópu undanfarið.

„Það var ekki tekið undir þessa bókun af meirihlutanum en hins vegar var ákveðið að verða við þeirri beiðni að fram færi fundur opinn gestum þar sem fulltrúar ríkisstjórnar og fræðimenn kæmu til að ræða þá stöðu sem er í ESB og hvaða breytingar eru að verða þarna og hvaða áhrif það hefur á aðildarumsóknina,“ segir Ásmundur Einar.

Var ákveðið að fundurinn færi fram eins fljótt og auðið verður og segist Ásmundur Einar skilja það svo að hann fari þá fram fyrir jól.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert