Héraðsdómur Reykjavíkur frestaði í dag refsingu yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Tryggva Jónssyni og Kristínu Jóhannesdóttur vegna brota gegn skattalögum. Er því þau sakfelld fyrir einhvern hluta þeirra brota sem ákært var fyrir. Haldi þau skilorð í eitt ár fellur refsing niður en brjóti þau af sér verður refsing ákvörðuð.
Jóni Ásgeiri , Tryggva og Kristínu var öllum gefið að sök að hafa framið meiriháttar brot gegn skattalögum. Jón Ásgeir og Tryggvi voru bæði ákærðir vegna sinna eigin, persónulegu, skattskila og vegna starfa sinna fyrir Baug og/eða Gaum en Kristín var eingöngu ákærð vegna starfs síns sem framkvæmdastjóri Gaums. Upphæð skattsvikanna nam alls um 282 milljónum. Einnig var ákært vegna vantalsins söluhagnaðar upp á 916 milljónir og vegna oftalinna gjalda upp á 15,7 milljónir.
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, sagði við aðalmeðferðina að við brotunum lægi allt að sex ára fangelsi og sektirnar ættu að lágmarki að vera tvöfaldur ávinningurinn og að hámarki tífaldur.