Ungt par kom í heimsókn á lögreglustöðina á Ísafirði í gærkvöld. Ekki var um neina kurteisisheimsókn að ræða heldur kom upp úr dúrnum að konan var föst í handjárnum.
Að sögn lögreglu hafði parið vonast til þess að lögreglan byggi yfir lyklum sem gengu að öllum slíkum járnum. Svo reyndist hinsvegar ekki vera en lögreglumenn á vakt dóu ekki ráðalausir heldur gripu til þess ráðs að sækja stórar klippur og losa konuna þannig úr prísundinni. Handjárnin eru því ónýt en skaðinn mun ekki mikill þar sem þau voru af ódýrari gerðinni að sögn lögreglu.
Parið var ekki krafið skýringa á hvernig þessa óþægilegu stöðu bar að en þar mun þó ekkert misjafnt hafa verið á ferðinni.