Auðseljanlegustu stórvirku vinnuvélarnar, sem ekki voru bundnar veðböndum, hafa nú þegar verið seldar úr landi, að sögn Árna Jóhannssonar hjá Samtökum iðnaðarins. Fyrir hrunið hafi menn hins vegar lítið staðið í útflutningi. Afskriftatími þessara tækja sé stuttur, eða um fimm ár.
„Tækjunum í landinu hefur því ekki aðeins fækkað heldur eru þau líka að verða gömul,“ segir Árni. „Það er áhyggjuefni að verði ekkert að gert er ekki aðeins tækjakosturinn orðinn of gamall, heldur er mannauðurinn jafnvel farinn úr landi til vinnu annað.“
Verktakar segja spurn eftir tækjum í Noregi. „Við seldum þrjá námaflutningabíla til Noregs um daginn,“ segir Dofri Eysteinsson, eigandi og framkvæmdastjóri Suðurverks hf. Hann segir bara tvennt í stöðunni, að selja eða koma sér á erlendan markað enda lítið framundan hér.