Umfang hugsanlegrar rannsóknar á því hvort fötluð börn hafi verið beitt ofbeldi eða sætt illri meðferð á vistheimilum á vegum opinberra aðila á Íslandi verður metið á næstunni. Þetta var samþykkt í ríkisstjórn í gær þegar síðasta skýrsla vistheimilanefndar var tekin til umfjöllunar. Hefur beiðni frá Landssamtökunum Þroskahjálp þessa efnis legið fyrir.
Í skýrslu vistheimilanefndar kemur fram að nefndinni hafi borist ábendingar um ofbeldi í dvöl á sveitaheimilum, Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Upptökuheimilinu Dalbraut, Vöggustofunni Hlíðarenda, vistheimilinu Kumbaravogi 1945-1956 og heimavist Laugarnesskóla, auk nokkurra annarra ábendinga sem beinast að heimavistarskólum sumardvalarheimilum, umönnun fatlaðra/þroskahamlaðra og fósturráðstöfunum.
Þá var samþykkt í ríkisstjórn að velferðarráðherra taki til sérstakrar umfjöllunar og meðferðar þær ábendingar sem vistheimilanefnd leggur fram varðandi meðferð á öðrum opinberum stofnunum, sumardvalarheimilum, umönnunarheimilum, fósturheimilum og sveitaheimilum, sem verið hafa undir opinberu eftirliti. Þá verði það metið og útfært í samráði við forsætisráðherra og innanríkisráðherra hvort styrkja megi lagagrundvöll í því skyni.