Versnandi veður á Suðurlandi

Veður er að versna mikið á Suðurlandi, að sögn veðurfræðings …
Veður er að versna mikið á Suðurlandi, að sögn veðurfræðings Vegagerðarinnar. Rax / Ragnar Axelsson

Veður fer nú mjög versnandi á Suðurlandi, að sögn veðurfræðings Vegagerðarinnar. Von er á skafrenningi og snjókomu, einna hvassast í Mýrdal og undir Eyjafjöllum. Þar má jafnframt búast við snörpum vindhviðum frá hádegi og fram undir kl 18. 

Veður fer mjög einnig versnandi með hríð og litlu skyggni á Hellisheiði og eins á Suðurnesjum og Reykjanesbraut.

Hálkublettir eru á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum en á Suðurlandi er víða nokkur hálka eða jafnvel snjóþekja. Hálkublettir og skafrenningur eru á Reykjanesbraut og ýmist snjóþekja, hálkublettir eða skafrenningur á Suðurnesjum.

Þungfært er á Suðurstrandarvegi. Á Vesturlandi eru hálkublettir eða hálka en þæfingsfærð er á Fróðárheiði. Hálka og snjóþekja er á flestum vegum á Vestfjörðum.

Á Norðurlandi er víðast hvar snjóþekja, hálka og éljagangur. Skafrenningur er sumstaðar í Húnavatnssýslu. Hálka eða hálkublettir eru um allt austanvert landið. Hálka og snjóþekja er á Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert