Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir það mikinn misskilning að það standi til að skattleggja lífeyrissjóði í hefðbundnum skilningi til frambúðar í þágu tekjuöflunar inn í ríkissjóð.
„Það dettur engum það í hug,“ sagði Steingrímur þegar hann var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni.
Steingrímur segir að verið sé að skapa lögformlegan grunn undir það að lífeyrissjóðirnir skili sínu í stóra samkomulagið um skuldalækkunaraðgerðirnar frá því í desember í fyrra. Þá hafi náðst samkomulag á víðtækum grunni milli stjórnvalda, fjármálastofnana, banka og lífeyrissjóða um tilteknar aðgerðir.
Hinn almenni þáttur aðgerðanna hafi verið að stórauka peninga í vaxtaniðurgreiðslur. „Upp á sex milljarða hvort árið 2011 og 2012. Og það var alltaf gengið út frá að þann kostnað tækju bankarnir og lífeyrissjóðirnir á sig. Ríkið legði sitt af mörkum í gegnum peninga inn í Íbúðalánasjóð. Þangað settum við jú 33 milljarða í desember í fyrra,“ sagði Steingrímur.
Hann segir að ekki hafi náðst samstaða hjá lífeyrissjóðunum um útfærslu á þessum greiðslum. „Þess vegna var ekkert úrræði eftir annað en það, sem þeir vissu alltaf að gæti orðið þrautalendingin, að afla þessara tekna frá þeim í gegnum lögformlega eða lögþvingaða innheimtu. Það er þetta sem er verið að gera til að tryggja að þetta stóra samkomulag haldi og til að tryggja að tugir þúsunda fjölskyldna fái þessar miklu vaxtaniðurgreiðslur á næstu árum,“ sagði Steingrímur.
„Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að þetta samkomulag springi í loft upp. Jafnvel með þeim afleiðingum að það verði engar vaxtaniðurgreiðslur á næsta ári,“ bætti hann við.
Þetta sé veruleikinn. Ekki sé hægt að ætlast til þess að aðrir aðilar standi við þetta ef lífeyrissjóðirnir hverfi alveg út úr þessu. „Það er mikið í húfi að þetta takist,“ sagði Steingrímur.