Mennirnir fundnir

Þyrla Landhelgisgæslunnar fann mennina fjóra sem leitað hefur verið að á Austurlandi í Egilsselsskála nú fyrir stundu. Er þyrlan nú á leið með mennina á Egilsstaði og eru þeir við ágæta heilsu eftir því sem best er vitað. Á sjötta tug björgunarsveitarmanna hefur leitað mannanna í dag.

Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir að sterkur grunur hafi leikið á að mennirnir væru staddir í skálanum og lögðu björgunarsveitamenn mikla áherslu á að kanna það. Þegar þyrlan kom á staðinn voru þrír hópar þeirra rétt ókomnir á staðinn en sótt var að honum úr mismunandi áttum þar sem færð var afar erfið.

Bíll mannanna fannst á vegi við Keldárstíflu en vélsleðar þeirra voru ekki þar. Þyrla Landhelgisgæslunnar var notuð til að leita í skálum á svæðinu og fundust mennirnir eins og áður sagði í Egilsseli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert