Nýtt fólk meldar sig daglega

Heiða Helgadóttir fylgist með Guðmundi Steingrímssyni opna nýja vefsíðu flokksins, …
Heiða Helgadóttir fylgist með Guðmundi Steingrímssyni opna nýja vefsíðu flokksins, en þau héldu blaðamannafund í vikunni til að kynna nýja flokkinn.

Þingmaðurinn Guðmundur Steingrímsson, sem stendur að stofnun nýs stjórnmálaflokks ásamt Besta flokknum, segir að á annað þúsund tillögur hafi borist um nafn á flokkinn, sem hyggst bjóða fram í næstu alþingiskosningum. Þá segir hann að nýtt fólk meldi sig í flokkinn á hverjum degi.

Guðmundur segir í pistli á bloggsíðu sinni að tillögurnar hafi borist í stríðum straumum. „Þær eru orðnar vel á annað þúsund. Einhverjir eru pirraðir og senda skæting. Langflestir — 99% — senda hins vegar einlægar og vel hugsaðar tillögur. Það verður mikill vandi að velja,“ skrifar hann.

Þá segir Guðmundur að það sé ákveðinn hópur í samfélaginu sem virðist alltaf halda því fram, alveg sama hversu oft maður segi skoðanir sínar á helstu málum, að maður hafi samt enga stefnu.

„Hvað er þá stefna? Er það ekki stefna að vilja klára aðildarviðræður, að vilja taka upp aðra mynt, að vilja selja raforku hærra verði og græða þar með á orkuauðlindunum loksins, að vilja að nýja stjórnarskráin fari fyrir dóm þjóðarinnar, að vilja tryggja að þjóðin fái meiri arð af sjávarauðlindinni, að vilja einfaldara regluverk utan um atvinnuvegina, setja fé í nýsköpunarsjóði, skapandi greinar, grænan iðnað … etc.,“ skrifar Guðmundur.

Þá sé það líka stefna að vilja tala öðruvísi um pólitík og stunda hana öðruvísi. Tala ekki illa um hina og vera ekki í keppni við hina. Vera jákvæð.

Guðmundur segir að það muni koma fram á næsta fundi hverjir aðrir séu á bak við framboðið. „Stærsti hópurinn er hópur fólks sem hefur ekki komið nálægt stjórnmálum áður, en getur núna hugsað sér það. Og nýtt fólk meldar sig á degi hverjum,“ segir Guðmundur.

Loks segir Guðmundur að sú spurning hafi verið borin upp hvort þetta nýja stjórnmálaafl sé grínframboð.

„Það finnst mér góð spurning. Mér finnst að allir flokkar ættu að þurfa að svara henni,“ segir Guðmundur í niðurlagi greinarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka