Ekki horfir björgulega fyrir málum frá sérstökum saksóknara ef fjögurra ára rannsóknartími hjá lögreglu og ákæruvaldi leiði til þess að ekki sé gerð refsing í þeim. Þetta segir Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari og sækjanda í málinu við aðalmeðferð, um gagnrýni Héraðsdóms Reykjavíkur á drátt á málsmeðferð Baugsmálsins.
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í skattahluta Baugsmálsins á föstudag, rétt tæpum þremur árum eftir að það var höfðað. Þau Jón Ásgeir Jóhannesson, Tryggvi Jónsson og Kristín Jóhannesdóttir voru sakfelld fyrir nokkra ákæruliði en refsingu var frestað m.a. vegna þess sem dómurinn sagði óréttlætanlegan drátt á málsmeðferðinni.
Helgi Magnús bendir á að sérstakur saksóknari rannsaki nú umfangmikil efnahagsbrot eins og Baugsmálið sé og mörg af þeim málum séu frá því fyrir bankahrun og þaðan af eldri. Rúmlega þrjú ár séu nú liðin frá hruninu en aðeins hafi verið gefnar út ákærur í fáeinum málum.
„Það er umhugsunarefni hvaða meðferð slík mál fá ef forsendur þessarar niðurstöðu um að fjögurra ára rannsóknartími hjá lögreglu og ákæruvaldi eigi að leiða til að það sé ekki gerð refsing í málum. Þá horfir nú ekki björgulega fyrir þeim málum,“ segir Helgi Magnús.
Ljóst sé að Baugsmálið sé umfangsmikið og flókið og rannsókn þess hafi tekið langan tíma. Ein af ástæðum þess að ákæra var ekki gefin út fyrr en 18. desember árið 2008, segir Helgi Magnús, hafi verið sá sameiginlegi skilningur sækjanda og verjanda að það væri óforsvaranlegt að taka ákvörðun um ákæru í málinu fyrr en niðurstaða yfirskattanefndar lægi fyrir. Hún hafi hins vegar ekki legið fyrir fyrr en í mars árið 2008 og í byrjun 2009, eftir að ákæra var gefin út. Þessi tími komi inn í þau fjögur ár sem málið var í rannsókn segir Helgi Magnús.
Tvö ár í málþóf
Þá megi fullyrða að tveimur og hálfu ári af síðustu þremur hafi verið eytt í tilefnislaust málþóf fyrir dómi. Héraðsdómur gagnrýni að rannsókn málsins hafi tekið fjögur ár en þar hafi þó verið að vinna að því að rannsaka málið, yfirheyra vitni, stilla upp gögnum og öðru slíku segir Helgi Magnús.
„Þetta tvö og hálft ár fyrir dómi er tilkomið vegna stjórnar dómara á þinghöldum og árangurslausu málþófi sakborninga. Þegar sakborningar hafa þurft að sitja undir sakargiftum í tvö og hálft ár vegna eigin aðgerða þá er það sérstakt að þeir eigi að njóta þess við ákvörðun refsingar,“ segir Helgi Magnús.
Að hans mati hefði dómari geta lokið málinu á hálfu ári eftir að ákæra var gefin út en í staðinn hafi verið gefinn kostur á síendurteknum flækjum og kröfum í fjögur til fimm skipti á þriggja ára tímabili.
Um 9.000 blaðsíður af gögnum
Héraðsdómur gagnrýndi einnig harðlega að ákæruvaldið hafi aðeins stuðst við lítið brot af þeim þúsundum skjala sem fylgdi ákærunni í málinu. Ekki hafi verið hugað að því að fjarlægja óþörf skjöl úr rannsókninni þegar ákæra var ákveðin og skjalaskrá sem fylgdi gögnunum hafi verið nær ónothæf sem efnisyfirlit.
„Ég fullyrði að þessi gögn eigi öll erindi við málið og tengist öll þessum sakargiftum. Það er ljóst að það er ekki geranlegur vegur að fara yfir níu þúsund blaðsíður af gögnum í þinghaldi í héraðsdómi. Þetta er hefðbundin uppsetning á þessu máli sem hefur verið notuð í mörg ár og hefur ekki sætt neinni sérstakri gagnrýni,“ segir Helgi Magnús.
Skjalaskrá sem hann hafi lagt fram með gögnunum leysi menn ekki undan því að þurfa að kynna sér gögnin. Oft hafi það verið látið bitna á ákæruvaldinu að það vantaði gögn og því ekki verið hægt að taka áhættu á að gögn vanti.
Þá segir Helgi Magnús að ekki hafi enn verið tekin ákvörðun um hvort dóminum verði áfrýjað til Hæstaréttar en ákæruvaldið hefur fjórar vikur til þess að taka ákvörðun um það.