Þörf á heildarendurskoðun á lífeyrissjóðskerfinu

mbl.is/ÞÖK

Hagsmunasamtök heimilanna segja að þörf sé á almennum leiðréttingum á stökkbreyttum lánum heimilanna og að verðtryggingin verði afnumin án tafar. Þá segja samtökin að stjórnvöld og þjóðin þurfi að horfast í augu við heildarendurskoðun á lífeyrissjóðskerfinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum þar sem brugðist er við frétt þess efnis að stjórnvöld hyggist fjármagna tímabundna vaxtaniðurgreiðslu með nýjum skatti á hreina eign lífeyrissjóða sem gæti orðið til þess að lífeyrir þeirra sem fá greitt úr almennum lífeyrissjóðum lækkaði.

„Stjórnvöld gerðu samkomulag við fjármálastofnanir og lífeyrissjóði um að þessir aðilar myndu fjármagna þá 12 milljarða sem þurfti fyrir þá leið sem varð fyrir valinu og myndi lenda á ríkissjóði, þ.e. að auka við vaxtabætur tímabundið. Hagsmunasamtök heimilanna hafa margoft bent á þá þörf að leiðrétta höfuðstól lána, bæði vegna þess forsendubrests sem varð vegna hrunsins og líka vegna þess að skuldastaða heimilanna er ósjálfbær og jafnframt er hún tilkomin að einhverju leyti vegna oftöku verðbóta í gegnum tengingu við vísitölu neysluverðs sem mælir verðbætur langt fram yfir rýrnun gjaldmiðilsins. Vísitala neysluverðs mælir breytingar á einingarverði, óháð veltu, miðað við neyslu sl. þriggja ára reiknaðri upp á verðlag hvers árs. Þannig hækka verðtryggðar skuldir heimila, sem lífeyrissjóðirnir eiga mest af, sjálfkrafa og án þess að nokkur velta eigi sér stað. Þetta er auðvitað fráleitt fyrir heimilin og knýr þau til að krefjast hærri launa og er þar með verðbólguhvati. Þetta kerfi gengur engan veginn upp til lengri tíma litið og er kominn tími til að horfast í augu við það og taka það til gagngerrar endurskoðunar,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

Óraunhæf ávöxtunarkrafa

Þar segir ennfremur að eignir lífeyrissjóðanna haldi áfram að aukast. Þær hafi aukist um 38,4 milljarða það sem af sé ári, eða um 1,9%. Eignasafnið hafi verið um 2.000 milljarðar í ársbyrjun og lífeyrisþegum sé lofað 3,5% raunávöxtun, ávöxtun umfram verðbólgu.

„Sú ávöxtunarkrafa er óraunhæf og þarfnast endurskoðunar. Jafnframt er um að ræða falskar tölur í eignasafni því lífeyrissjóðirnir eiga útistandandi lán án veða hjá fyrirtækjum sem munu ekki geta greitt þau. Sjóðirnir munu þurfa að skerða réttindi almenna markaðarins til að mæta auknum halla á tryggingastöðu sjóðanna, þar sem 20% vinnuafls (opinberir starfsmenn) eiga meirihluta hallans,“ segja samtökin.

Oftaka fjár og ofurálögur á heimili

Þá kemur fram að eignaaukning fjármálakerfisins í formi verðbóta og vaxta sé eignatilfærsla frá þeim sem séu að reyna að búa sér heimili til þeirra sem í flestum tilfellum eigi skuldlaus heimili og séu á ellilífeyri.

„Eignatilfærsla í formi verðbóta frá hruni er nú yfir 150 milljarðar til lífeyrissjóðanna og standa þeir hvað harðast gegn almennum leiðréttingum á þessari ósanngjörnu eignatilfærslu vegna hrunsins. Heildareignatilfærsla í formi verðbóta til lánveitenda er nú um 350 milljarðar á eingöngu þremur árum.

Þetta er ekkert annað en oftaka fjár, ofurálögur á heimilin í landinu sem getur ekki gengið. Þörf er á almennum leiðréttingum á stökkbreyttum lánum heimilanna og tafarlausu afnámi verðtryggingar. Þjóðin og stjórnvöld þurfa að horfast í augu við að heildarendurskoðun á lífeyrissjóðskerfinu getur þurft að koma til samhliða þessum breytingum. Vilja Hagsmunasamtök heimilanna í þessu sambandi minna á undirskriftasöfnun fyrir ofangreindum kröfum á heimilin.is,“ segir í tilkynningu frá Hagsmunasamtökum heimilanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert