Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að tímasetning ummæla sem forseti ASÍ lét falla um að evran væri lausnarorðið sé undarleg miðað við hvernig komið sé fyrir gjaldmiðlinum. Ögmundur segir ennfremur að sjónarhorn ASÍ sé þar fyrir utan æði þröngt, borið saman við sýn Josephs Stieglitz.
„Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ sagði í RÚV á föstudag að íslenskt launafólk hefði getað staðist hrunið ef við hefðum haft sterkan gjaldmiðil. Með öðrum orðum, þótt bankakerfið (og þá væntanlega einnig lífeyrisskerfið) hryndi, þá væri hagur launafólks tryggur svo lengi sem gjaldmiðillinn væri traustur! Og Gylfi og Ólafur Darri, hagfræðingur ASÍ, hömruðu síðan saman á því að evran væri lausnarorðið. Undarleg tímasetning miðað við hvernig komið er fyrir evrunni! Þar fyrir utan virðist sjónarhorn þeirra ASÍ manna æði þröngt, alla vega borið saman við sýn Nóbelsverðlaunahafans í hagfræði Josephs Stieglitz,“ skrifar Ögmundur á heimasíðu sína, en pistillinn ber yfirskriftina „Hið þrönga og hið víða sjónarhorn“.
Ögmundur segir í framhaldinu frá grein sem Stieglitz skrifar sem birt er á vef Landsbankans. Hann segir Stieglitz sýna fram á samhengi óhóflegrar skuldsetningar á einkamarkaði annars vegar og klyfja sem af þessum sökum hlaðist á ríkissjóði innan Evrópusambandsins hins vegar.