Biskup Íslands hefur gert athugasemdir við nýjar vinnureglur, sem sóknarnefnd og prestar Selfosskirkju settu sér nýlega og varða kynferðisbrotamál.
Vinnureglurnar gera m.a. ráð fyrir því, að þau sem orðið hafa uppvís að brotum á starfs- og siðareglum sem í gildi eru hjá þjóðkirkjunni og varða kynferðisbrot og lögum um slík brot skuli ekki ráðin til starfa hjá Selfosskirkju og að jafnaði heldur ekki annast athafnir innan veggja hennar og aldrei nema að fengnu samþykki sóknarnefndar og presta kirkjunnar.
Fram kemur á vefnum dfs.is að Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, hafi sent prestunum og formanni sóknarnefndar, vígslubiskupi í Skálholti og prófasti í Suðurkjördæmi bréf þar sem hann lýsir ánægju sinni með að sóknarnefnd og prestar kirkjunnar marki sér stefnu hvað varðar kynferðisbrotamál.
Hins vegar virðist ákvæðið í vinnureglunum, sem vitnað var í hér að ofan, ekki samrýmast starfsreglum um kirkjur og safnaðarheimili og nýsamþykktum starfsreglum um presta.
Ekki geti verið hlutverk sóknarprestsins, annarra presta eða sóknarnefndar að ganga eftir því hvort sá prestur sem aðstandendur treysti fyrir athöfnum sé með hreinan skjöld. Biskup Íslands hafi yfirumsjón með kirkjuaga og taki af skarið ef prestur verður brotlegur við lög eða siðareglur.
„Hafi prestur ekki verið sviptur umboði vígslunnar, samanber samþykktir um innri mál kirkjunnar, XI.16. þá heldur hann rétti sínum til að vinna prestsverk. Sóknarnefnd, sóknarprestur eða aðrir prestar geta ekki gengið lengra en biskup í þessum efnum,“ segir í bréfi biskups.
Dfs.is segir að fundur verði haldinn í sóknarnefnd Selfosskirkju fimmtudagskvöldið 15. desember þar sem bréf biskups verði m.a. tekið fyrir.