Fái ekki laun fyrir forsetastörf

Árni Þór Sigurðsson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Árni Þór Sigurðsson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. mbl.is/Eggert

Sjö þingmenn hafa lagt fram frumvarp á Alþingi sem felur í sér að handhafar valds forseta Íslands fái ekki sérstakar greiðslur, aðrar en fyrir útlögðum kostnaði, vegna afleysingastarfa sinna.

Í frumvarpinu er lagt til að felld verði niður 1. málsgrein 7. greinar laga um laun forseta Íslands sem kveður á um að handhafar forsetavalds skulu samanlagt njóta jafnra launa og laun forseta eru þann tíma sem þeir hverju sinni fara með forsetavald um stundarsakir.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en meðflutningsmenn eru Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vg, Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksfomaður Framsóknarflokksins, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, þingmenn Hreyfingarinnar, og Þráinn Bertelsson, þingmaður Vg.  

Í greinargerð frumvarpsins segja þau að stjórnarskráin kveði á um að handhafar valds forseta Íslands, forseti Alþingis, forsætisráðherra og forseti Hæstaréttar, skuli fara með vald forseta í fjarveru hans og því sé eðlilegt að líta svo á að þau aukaviðvik sem þeir sem slíkir inna af hendi séu innifalin í starfskjörum sem þeim eru ákveðin af kjaradómi fyrir meginstarf þeirra.

„Því sé ekki sérstök ástæða til að greiða þeim aukaþóknun fyrir handhafahlutverkið. Kostnaður ríkissjóðs vegna handhafa nemur um 10 millj. kr. á ári og mun sú fjárhæð sparast verði frumvarpið að lögum. Lagt er til að þessi breyting taki gildi við upphaf næsta kjörtímabils forseta Íslands,“ segir í greinargerð frumvarpsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka