Næstmesta brottflutningsárið

Samtök atvinnulífsins segja forsætisráðherra ekki fara með rétt mál.
Samtök atvinnulífsins segja forsætisráðherra ekki fara með rétt mál. mbl.is/Kristinn

Samtök atvinnulífsins segja Jóhönnu Sigurðardóttur ekki fara með rétt mál í fréttum Ríkisútvarpsins, að fólksflutningar núna séu ekkert meiri en í venjulegu árferði. Að óbreyttu stefni í næstmesta brottflutningsár Íslendinga í sögunni. 

„Þetta er því miður ekki rétt hjá forsætisráðherra,“ segir í umfjöllun á vefsíðu SA vegna ummæla forsætisráðherra í fréttum í dag.

SA benda á að samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar hafi brottfluttir umfram aðflutta verið tæplega 1.400 á fyrstu níu mánuðum þessa árs. „Brottfluttir íslenskir ríkisborgarar umfram aðflutta voru 1.320 og erlendir voru 80. Ef fram heldur sem horfir verða brottfluttir íslenskir ríkisborgarar umfram aðflutta 1700-1800 á árinu öllu. Ef svo fer verður árið 2011 næstmesta brottflutningsár Íslendinga í sögunni í fjölda einstaklinga talið. Einungis árið 2009 er hærra með tæplega 2.500 brottflutta Íslendinga umfram aðflutta en árið 2010 voru þeir 1.700,“ segir í umfjöllun SA.  

Þar segir einnig að í lok september þessa árs hafi íbúar landsins verið 319.090 og fjölgað  um 600 frá áramótum. „Ef ekki hefði komið til 1.400 manna brottflutningur umfram aðflutta hefði fjölgunin numið 2.000.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert