Átta þingmenn leggja til í frumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi að virðisaukaskattur á smokkum verði lækkaður úr 25,5% í 7%.
Í greinargerð frumvarpsins benda flutningsmenn á að í nýlegri áfangaskýrslu starfshóps velferðarráðuneytisins um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks komi fram að notkun ungra Íslendinga á smokkum er ein sú minnsta á Vesturlöndum.
„Notkun hormónagetnaðarvarna er minnst hér á landi af Norðurlöndunum, en sala neyðargetnaðarvarna mest. Á sama tíma er tíðni ýmissa kynsjúkdóma svo sem klamydíu og HPV ein sú hæsta. Ungt fólk á Íslandi byrjar einnig tiltölulega snemma að stunda kynlíf og á marga bólfélaga. Barneignir eru mun fleiri í þessum aldurshópi en annars staðar á Norðurlöndunum, þótt þeim hafi fækkað á undanförnum árum, en tíðni fóstureyðinga er næstlægst,“ segir í greinargerð.
Flutningsmenn frumvarpsins eru Eygló Harðardóttir, Birkir Jón Jónsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Birgitta Jónsdóttir,
Guðmundur Steingrímsson og Magnús Orri Schram.