Tólf Kaupþingsmenn kærðir

Fjármálaeftirlitið.
Fjármálaeftirlitið. Sigurgeir Sigurðsson

Fjármálaeftirlitið kærði tólf fyrrverandi starfsmenn Kaupþings til embættis sérstaks saksóknara árið 2009 vegna meintrar markaðsmisnotkunar. Starfsmennirnir tólf eru taldir hafa stundað eða haft vitneskju um misnotkunina. Þetta kom fram í Kastljósþætti á RÚV nú í kvöld.

Uppfært kl. 22.10

Meðal þeirra sem kærðir voru, að sögn Kastljóss, voru Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri samstæðu Kaupþings og Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi.

Í þættinum var fjallað um meinta markaðsmisnotkun Kaupþings fyrir hrun og stórtæk kaup bankans á eigin bréfum að því er virðist í þeim tilgangi að halda uppi verði þeirra. Þar kom meðal annars fram að síðustu fimm mánuðina fyrir fall bankans hefði hann keypt allt að 75 prósent af öllum hlutabréfum í sjálfum sér sem voru til sölu í hverjum mánuði.

Kastljós greindi m.a. frá því að í kæru Fjármálaeftirlitsins komi fram að nettókaup Eiginviðskipta Kaupþings (EVK) á hlutabréfum í bankanum hafi numið um 96 milljörðum króna frá nóvember 2007 til október 2008. Þá hafi gengistap EVK af viðskiptum með hlutabréf útgefnum af bankanum numið rúmlega 19 milljörðum á árinu 2008. Þar við bættist „tap bankans vegna útlána til hlutabréfakaupa í bankanum sjálfum sem nemur tugum milljarða.“

Morgunblaðið greindi frá kærum Fjármálaeftirlitsins til sérstaks saksóknara, vegna gruns um meinta allsherjar markaðsmisnotkun Kaupþings, þann 17. október 2009. Þar kom fram að grunur léki á að Kaupþing hafi kerfisbundið reynt að hafa áhrif á eigin hlutabréfaverð og skapað stöðuga eftirspurn eftir bréfunum og með því sent röng skilaboð til markaðarins.

Einnig að mörg smærri mál sem FME hefði rannsakað og þá þegar sent til sérstaks saksóknara tengdust umræddri markaðsmisnotkun. Fram kom að markaðsmisnotkun geti varðað allt að sex ára fangelsi samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

Í Kastljósi kom fram að rannsókn embættis sérstaks saksóknara á meintri markaðsmisnotkun Kaupþings sé langt komin. Óvíst sé þó hvenær vænta megi niðurstöðu. Þegar hún liggi fyrir verði ákveðið hvort ákært verði vegna málsins eða ekki.

Stórtæk kaup í eigin bréfum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert