Ástæða er til að vara við eldhættu af svonefndum etanól-örnum sem ollu alvarlegu slysi í raðhúsi í Fagrahjalla í gær. Varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir etanól mjög eldfimt efni sem þurfi að umgangast af varúð.
Fyrir réttum tveimur árum síðan benti Brunamálastofnun á eldhættu af slíkum örnum ef ekki væri rétt með þá farið. Þá var greint frá því að margir hafi sett upp slíka arna hér á landi. „Brunamálastofnun er kunnugt um að sprenging hafi orðið í einum slíkum arni í Færeyjum í vor með þeim afleiðingum að það kviknaði í húsinu sem hann var í. Samskonar arinn orsakaði bruna í veitingahúsi í Danmörku nú í nóvember. Ekki urðu slys á fólki við þessa bruna en til eru dæmi um alvarleg slys á fólki vegna etanól-arna,“ segir í aðvörun Brunamálastofnunnar.
Varðstjórinn segir ástæðu til að árétta ábendingu og viðvörun Brunamálastofnunar í ljósi slyssins í gærkvöldi.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn eldsvoðans sem upp kom í Fagrahjalla í gær en í honum brenndist kona alvarlega. Svo virðist sem hún hafi verið að kveikja upp í arni af umræddri gerð.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slys verður í tengslum við etanól-arinn hér á landi því árið 2010 brenndist kona illa á Selfossi við að bæta etanóli á slíkt eldstæði.
Leiðbeiningar Brunamálastofnunar