Í lok nóvember sl. höfðu alls 523 verið atvinnulausir í þrjú ár eða lengur, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Fyrir tæpum þremur árum, í janúar 2009, voru um 40 atvinnulausir í sömu stöðu. Í hópi langtímaatvinnulausra hefur fjölgað hratt en í júlí sl. höfðu tæplega 100 manns verið án atvinnu í meira en þrjú ár.
„Við erum með þennan hóp í algjörum forgangi hjá okkur, sérstaklega þá sem hafa verið lengur en þrjú ár án vinnu og á atvinnuleysisskrá,“ segir Hrafnhildur Tómasdóttir, sviðsstjóri hjá Vinnumálastofnun, um stöðu langtímaatvinnulausra, í fréttaskýringu um þessi mál í Morgunblaðinu í dag. Nærri 13 þúsund manns nýttu sér ýmis vinnumarkaðsúrræði stofnunarinnar á síðasta ári.
Til að koma enn frekar til móts við atvinnulausa samþykkti ríkisstjórnin í gær tillögur aðgerðahóps sem skipaður var í tengslum við gerð kjarasamninga sl. vor. Gerði hópurinn tillögu um sérstakt átak, sem nefnist „Til vinnu!“ og er ætlað að fjölga úrræðum og auka möguleika atvinnulausra á að fá vinnu eða starfsþjálfun. Um tímabundnar aðgerðir er að ræða sem eiga að lækka atvinnuleysisstig á næsta ári um 0,7%. Markmiðið er m.a. að örva nýráðningar, fjölga störfum um allt að 1.500 og einfalda ráðningarferli atvinnurekenda gagnvart starfstengdum úrræðum.