„Það voru á þriðja þúsund á atvinnuleysisskrá hjá okkur í haustbyrjun. Það er alltof mikið. Þegar hábjargræðistímanum lauk í sumar tók þessi tala að hækka á ný,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar stéttarfélags, um atvinnuþref hjá mörgum félagsmönnum.
Umskiptin sem Sigurður vísar til urðu í september og er nú svo komið að milli 2.400 og 2.500 félagsmenn í Eflingu eru án atvinnu.
Aðspurður um framhaldið kveðst Sigurður óttast að erfið staða hjá ríki og sveitarfélögum kunni að koma fram í frekari uppsögnum á næsta ári.
Ófaglærðir missa vinnuna
Nú þegar hafi til dæmis hátt í 300 félagsmenn í Eflingu misst vinnuna hjá Landspítalanum, þar með taldar ræstingarkonur sem hafi starfað við spítalann í áratugi.
„Við vonuðumst til þess að nú væri farinn að verða ákveðinn viðsnúningur en það höfum við ekki séð til þessa. Þvert á móti erum við núna að sjá fjölgun á atvinnuleysisskránni eftir tímabundna fækkun síðari mánuði sumars," segir Sigurður og heldur áfram.
Hagvaxtartölur skila sér ekki
„Atvinnuleysistölurnar eru alltof háar í byrjun vetrar þar sem við vitum að það verður enn frekari samdráttur, líkt og yfirleitt er yfir vetrarmánuðina á Íslandi. Maður hefði talið að það myndi fækka meira á atvinnuleysisskránni yfir sumarmánuðina, þegar atvinnustigið er hvað öflugast, en raunin varð.
Þær hagvaxtartölur sem vísað er til í umræðu um stöðu efnahagsmála hafa ekki skilað sér í fjölgun starfa. Við óttumst að horfa fram á mjög harðan vetur,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar.