Stjórnvöld, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins hafa samþykkt að standa saman að fjölbreyttum og öflugum aðgerðum sem ætlað er að tryggja allt að 1.500 atvinnuleitendum starfstengd úrræði. Átaki með yfirskriftinni Til vinnu verður hrint af stað í byrjun næsta árs.
Þetta kemur fram í nefndaráliti meirihluta velferðarnefndar með frumvarpi þar sem m.a. réttur til atvinnuleysisbóta í fjögur ár er framlengdur til ársloka 2012.
Fram kemur að samkvæmt samkomulaginu, sem undirrita á á föstudaginn, munu aðgerðir í þágu langtímaatvinnulausra hafa forgang.
„Fyrir nefndinni kom fram að liður í þessum aðgerðum er að gert verði samkomulag um samstarf Vinnumálastofnunar og VIRK – starfsendurhæfingarsjóðs um þjónustu VIRK við atvinnuleitendur sem hafa skerta starfsgetu. Ennfremur muni Samband íslenskra sveitarfélaga beita sér fyrir því að sveitarfélögin skapi a.m.k. helming starfa eða starfstengdra úrræða innan verkefnisins en fyrirtæki á almennum vinnumarkaði skapi hinn helminginn. Í því skyni muni Samtök atvinnulífsins ráðast í sérstakt kynningarátak meðal fyrirtækja innan sinna vébanda til að ná þessu markmiði,“ segir í nefndarálitinu.