Tómas H. Heiðar, aðalsamningamaður Íslands í viðræðum um makrílveiðar, segir að framkvæmdastjórn ESB ætti fremur að verja kröftum sínum í að stuðla að samkomulagi um stjórn makrílveiðanna en ýja að innflutningsbanni og öðrum viðskiptaaðgerðum sem fari í bága við alþjóðlega viðskiptasamninga.
Þetta kemur fram í svari Tómasar við þeirri tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að samþykkt verði reglugerð sem geri ESB kleift að beita þjóðir refsiaðgerðum sem stunda ósjálfbærar fiskveiðar og standa utan ESB. M.a. er rætt um innflutningsbann.
„Ég tel að framkvæmdastjórn ESB ætti fremur að verja kröftum sínum í að stuðla að samkomulagi um stjórn makrílveiðanna en ýja að innflutningsbanni og öðrum viðskiptaaðgerðum sem fara í bága við alþjóðlega viðskiptasamninga. Á fundi strandríkjanna fjögurra í Clonakilty í síðustu viku lögðu ESB og Noregur fram tillögu um skiptingu makrílkvóta milli aðila sem fól í sér stórt skref aftur á bak frá undanförnum fundum. Tillagan olli okkur miklum vonbrigðum, enda höfum við lagt ríka áherslu á að ná samkomulagi til að tryggja sjálfbærar makrílveiðar og koma í veg fyrir frekari ofveiði úr stofninum sem allir aðilar bera sameiginlega ábyrgð á,“ segir Tómas.
Hann segir að samkvæmt lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, sé erlendum skipum, sem stundi veiðar úr sameiginlegum fiskistofnum sem ekki sé samkomulag um stjórnun á, óheimilt að landa slíkum afla í íslenskum höfnum. Erlendum fiskiskipum sé samkvæmt því óheimilt að landa makríl í íslenskum höfnum. Slíkt löndunarbann eigi sér stoð í EES-samningnum og Noregur hafi sett sams konar bann. Íslensk stjórnvöld geri að sjálfsögðu ekki athugasemd við að sams konar reglur gildi um löndun íslenskra fiskiskipa í erlendum höfnum og gildi um löndun erlendra fiskiskipa hér, enda sé um að ræða afla úr sameiginlegum stofnum sem ekki sé samkomulag um stjórnun á. Í þessu sambandi sé raunar vert að hafa í huga að makrílveiðar íslenskra skipa fari eingöngu fram innan íslensku efnahagslögsögunnar og öllum afla hafi verið landað í íslenskum höfnum og hann unninn hér á landi.
„Hins vegar er alveg ljóst að innflutningsbann og aðrar slíkar viðskiptaaðgerðir eiga sér enga stoð í og brjóta í bága við EES-samninginn, EFTA-samninginn og WTO-samninginn. Ég tel því engar líkur á að gripið verði til slíkra aðgerða.
Engin ákvörðun hefur verið tekin um framhald makrílviðræðna og að óbreyttu verður hlutdeild Íslands í veiðunum á næsta ári áfram um 16%. Ekki er útilokað að gerð verði úrslitatilraun til að ná samkomulagi en ljóst er að ESB og Noregur þurfa að endurskoða afstöðu sína vel og vandlega eigi einhver von að vera um árangur á slíkum lokafundi,“ segir Tómas.