Engin jól án Icesave

Lárus Blöndal (til vinstri) og Jóhannes Sveinsson sátu í Icesave-samninganefndinni.
Lárus Blöndal (til vinstri) og Jóhannes Sveinsson sátu í Icesave-samninganefndinni.

„Það virðast engin jól vera án Icesave,“ sagði Lárus Blöndal lögmaður sem sæti átti í samninganefnd Íslands um Icesave-málið, en hann vísar til þess að síðustu ár hafa að jafnaði borist ný tíðindi af Icesave-málinu í desember.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) tilkynnti í dag að ákveðið hefði verið að stefna íslenskum stjórnvöldum fyrir dóm vegna Icesave-málsins.

Lárus sagði að þessi ákvörðun þyrfti ekki að koma á óvart. „Þetta var einn af þeim möguleikum sem voru í stöðunni og við höfum gengið alveg með opin augun að því að þetta gæti gerst. Menn voru að vonast eftir að áætlun um endurheimtur og greiðsla upp í kröfur myndi hafa þau áhrif að ákvörðun um málshöfðun yrði frestað eða jafnvel að málið yrði látið niður falla,“ sagði Lárus.

Lárus sagði að næsta skref Íslands í málinu yrði að verjast fyrir dómstólnum. Ísland væri búið að setja fram sín sjónarmið gagnvart ESA. Það væri því búið að leggja í mikla vinnu sem myndi nýtast í vörninni. Nú yrði að láta reyna á þessi sjónarmið fyrir dómstólnum.

Lárus sagði ekki hægt að fullyrða um hversu langan tíma tæki fyrir dómstólinn að komast að niðurstöðu, en líklegt væri að eitt ár eða rúmlega það væri í niðurstöðuna.

Lárus var spurður hvort Ísland yrði strax að borga kröfur Breta og Hollendinga ef Ísland tapaði málinu.

„Tæknilega séð er ekki verið að dæma Ísland til að greiða einhverja tiltekna fjárhæð. Þetta mál snýst bara um hvort Ísland hafi brotið gegn EES-samningnum eða ekki. Þetta er svokallað samningsbrotamál. Ef við töpum málinu stendur upp á okkur að lagfæra það sem úrskeiðis fór. Það getur verið matskennt hvernig það verður gert. Ég geri ráð fyrir að Bretar og Hollendingar muni setja fram sínar kröfur um hvað þeir telji að þurfi að gerast til að leysa málið. Það verður bara að koma í ljós hvort það næst samkomulag um það.

Við erum auðvitað með samning [EES-samninginn] sem er virkur í báðar áttir og ef niðurstaðan er að við hefðum brotið gegn honum þá er hann í uppnámi meðan ekki er búið að bregðast við. Við þurfum að finna leið til að leysa úr því, að öðrum kosti hlýtur það að vera inni í myndinni að menn grípi til einhverra aðgerða,“ sagði Lárus.

Áætlun slitastjórnar Landsbankans gerir ráð fyrir að árið 2016 verði búið að greiða til kröfuhafa þær eignir sem eru í þrotabúinu. Ekki verður því búið að greiða allar Icesave-kröfurnar þegar dómur EFTA-dómstólsins fellur, sem gæti orðið á árinu 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert