Formaður skilanefndar Kaupþings banka, Steinar Þór Guðgeirsson hæstaréttarlögmaður, segir að skilanefndin hafi ítrekað boðið þingmönnum og ráðherrum á sinn fund frá því nefndin hóf störf en mjög fáir hafi þekkst boðið þrátt fyrir að þeir hafi gagnrýnt störf nefndarinnar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali Önnu Lilju Þórisdóttur við Steinar Þór í Morgunblaðinu í dag.
Enginn áttaði sig á stærð verkefnisins
Steinar segir að í upphafi hafi enginn áttað sig á því hversu stórt verkefni hann og samstarfsmenn hans höfðu tekið að sér, þar með taldir þeir sjálfir. „Það hvarflaði ekki að neinum hvað þetta var stórt verkefni; fimmta stærsta gjaldþrot heimssögunnar, en menn sáu í gegnum þetta smátt og smátt. Bara það, að taka við bankanum og reka hann í þrjár vikur með nánast engu fjármagni og skipta honum síðan upp í innlenda og erlenda starfsemi, var gríðarstórt verkefni. Það var auðvitað galið að vera með daglegan rekstur í gjaldþrota banka og ekkert smámál að skipta risastóru fyrirtæki upp á þennan hátt á meðan allt brann í kring. Auðvitað hefðum við getað farið með þetta lánasafn og þessar eignir erlendis og fengið einhverja aðra til að sjá um þetta fyrir okkur. En við ákváðum að reka þetta héðan.“
Ófáir, ekki síst þingmenn og aðrir ráðamenn, hafa gagnrýnt skilanefndir bankanna fyrir siðleysi, sérhagsmunagæslu og ógagnsæi í vinnubrögðum. Að skilanefndir hafi umráð yfir gríðarháum fjárhæðum en séu í raun og veru ekki ábyrgar fyrir neinu. Sjálftaka launa heyrist oft í þessu sambandi.
Steinar segist hafa orðið vel var við þessa gagnrýni, en þvertekur fyrir að hún eigi við rök að styðjast. „Ég ber auðvitað persónulega ábyrgð á öllum mínum verkum sem lögmaður og þarf að inna þau af hendi í samræmi við þær reglur sem um það gilda.“ Hann segir að þekkingarleysi sé oftar en ekki skýringin á þessari gagnrýni og segir skilanefndina hafa lagt sig fram við að kynna störf sín bæði fyrir þingmönnum og almenningi. Að auki hafi fyrirkomulag skilanefndanna verið ákveðið af Alþingi og þar með þingmönnum sjálfum.
„Ég hef sent þeim [þingmönnum] skýrslur sem við gefum út og við höfum ítrekað boðið þeim og ráðherrum til okkar á þeim tíma sem nefndin hefur starfað. Mjög fáir hafa þegið boðið,“ segir Steinar. Hann segir að kröfuhafaskýrsla, sem gefin er út í hverjum mánuði, sé öllum aðgengileg á vefsíðu skilanefndarinnar, en þar eru upplýsingar um stöðu og þróun mála. „Auðvitað þurfum við að gæta bankaleyndar varðandi einstök viðskiptamálefni, en við höfum ekkert að fela í starfsemi okkar. Allar þessar upplýsingar liggja fyrir en stundum finnst manni eins og þingmönnum þyki betra að vita sem minnst, því þannig geta þeir látið út úr sér alls konar hluti.“