FME fékk rangar upplýsingar

Í Kastljósi kom fram að Landsbankinn keypti eigin bréf fyrir …
Í Kastljósi kom fram að Landsbankinn keypti eigin bréf fyrir tugi milljarða síðustu mánuðina fyrir fall hans. mbl.is/hag

Til að leyna stöðu Landsbankans í eigin bréfum gáfu þáverandi stjórnendur bankans Fjármálaeftirlitinu a.m.k. tvisvar sinnum rangar upplýsingar um stöðuna á árunum 2006 til 2008. Þetta kom fram í Kastljósþætti Ríkissjónvarpsins í kvöld.

Í þættinum var sjónum beint að meintri markaðsmisnotkun bankans á árunum fyrir hrun. Fram kom að eigin fjárfesting Landsbankans keypti hlutabréf í bankanum fyrir um 60 milljarða króna nettó, síðasta árið fyrir fall bankans. Sagt var að þetta hefði verið gert til að hafa áhrif á gengi hlutabréfanna.

Stjórnendur bankans hefðu svo gefið FME í að minnsta kosti tvígang rangar upplýsingar um eign bankans í eigin bréfum. 

Í þættinum var m.a. vitnað í kæru FME til embættis sérstaks saksóknara vegna meintrar markaðsmisnotkunar. Fram kom að fjölmargar fundargerðir vantar frá fundum fjármálanefndar bankans þar sem æðstu stjórnendur hittu lykilstarfsmenn og farið var yfir stöðuna í eigin bréfum.

Einnig kom fram í umfjöllun Kastljóss að FME kærði 18 fyrrverandi starfsmenn Landsbankans vegna meintrar markaðsmisnotkunar til embættis sérstaks saksóknara fyrir tveimur árum. 10 þeirra hafa stöðu sakbornings í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert