Hægt verði að beita refsiaðgerðum

Makríll
Makríll

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leggur til að reglugerð verði samþykkt sem geri ESB kleift að beita þjóðir refsiaðgerðum sem stunda ósjálfbærar fiskveiðar og standa utan ESB. Þetta á m.a. við um makrílveiðar Íslendinga.

Í tilkynningu frá framkvæmdastjórninni segir að þegar Evrópuþingið og ráð ESB hefur samþykkt reglugerðina þá muni ESB búa yfir öflugu vopni sem hægt verði að beita á til að draga hratt úr ósjálfbærum fiskveiðum og auka samstarf á sameiginlegum fiskimiðum.

Segir að aðgerðirnar séu af ýmsum toga. M.a. verði hægt að takmarka innflutning á fiski. Makrílinn er hins vegar ekki sérstaklega tilgreindur í tilkynningunni. Segir ennfremur að með þessu sé tryggt að farið verði eftir alþjóðlegum lögum.

Framkvæmdastjórnin segir að umrædd ríki muni fá tækifæri til að skýra sína afstöðu áður en aðgerðirnar fái grænt ljós. Þau fá jafnframt tækifæri til að bæta ráð sitt til að komast hjá refsiaðgerðum.

Haft er eftir Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, að um tímamót sé að ræða. Muni aðgerðirnar hljóta blessun ESB-ríkjanna og Evrópuþingsins þá muni menn í fyrsta sinn búa yfir verkfæri sem muni aðstoða sambandið við að vernda þá fiskistofna sem ESB deilir með öðrum ríkjum. Damanaki segir að þetta sé afar mikilvægt fyrir sjávarþorp og til að viðhalda tegundum til langs tíma litið. Það sé bæði í þágu neytenda og samfélagsins í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert