Kínaforseti fagnar Íslandstengslum

Ólafur Ragnar Grímsson er gestgjafi Jiang Zemin, forvera Hu í …
Ólafur Ragnar Grímsson er gestgjafi Jiang Zemin, forvera Hu í embætti, árið 2002. Zemin er nú 85 ára. Jim Smart

Hu Jintao Kínaforseti og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, skiptust á þakkarbréfum í tilefni þess að fjörutíu ár eru liðin síðan fjölmennasta ríki heims og eitt hið fámennasta tóku upp diplómatísk samskipti.

Greint er frá bréfaskriftunum á vef China Daily, málgagns kínverska kommúnistaflokksins.

En í þessu samhengi má rifja upp þau ummæli Ólafs Ragnars í samtali við kanadíska sjónvarpsstöð fyrr í mánuðinum að Kínverjar hafi verið reiðubúnir til samstarfs þegar Ísland eingangraðist á alþjóðavettvangi í Icesave-deilunni. 

Á vef kínverska blaðsins er haft eftir Hu forseta að á síðustu árum hafi ríkin tvö náð jákvæðum árangri í viðræðum á sviði efnahagsmála og verslunar, fiskveiða, menningar, menntunar, ferðaþjónustu og þróun tækni til beislunar jarðhita.

Kínaforseti lýsir yfir vilja kínverskra stjórnvalda til að efla þessa samvinnu enn frekar svo „lyfta megi tvíhliða og vinsamlegri samvinnu í nýjar hæðir“ svo vitnað sé beint til endursagnar China Daily á ummælum Hu.

Samstarf á jafningjagrundvelli

Jafnframt er vitnað til Ólafs Ragnars um að ríkin tvö komi fram við hvort annað á jafningjagrundvelli  og að samvinnan sé orðin fyrirmynd milliríkjasamskipta.

Loks má nefna að Yang Jiechi, utanríkisráðherra Kína, og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skiptust á heillaóskum í tilefni áfangans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka