Missi ekki bætur í 3 mánuði

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ernir

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, gerir sér vonir um að sátt sé að nást í viðræðum við stjórnvöld sem verði til þess að þau falli frá áformum um að þeir sem hafa verið atvinnulausir lengur en þrjú ár falli af bótum í 3 mánuði áður en réttur þeirra endurnýjast.

Gylfi segir að náist þetta í gegn eins og vonir standi til, verði meiri áhersla lögð á vinnumiðlun og virkar aðgerðir fyrir þá sem eru án atvinnu, sérstaklega langtímaatvinnulausa.

Forystumenn verkalýðshreyfingarinnar gagnrýna harðlega ýmsar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, ekki síst boðaðan eignarskatt á lífeyrissjóði. Viðræður eiga sér stað milli forsvarsmanna ASÍ og ráðherra þessa dagana um þetta mál og fleiri sem deilt er um.

Fram hefur komið að reynt verði að finna einhverja leið til að koma í veg fyrir að skattlagning á sjóðina hafi áhrif á lífeyrisréttindi. Engin niðurstaða liggur enn fyrir um þetta.

Gylfi segist binda ákveðnar vonir við að hægt verði að tryggja að ekki komi til skerðingar lífeyrisréttinda launafólks. „Þetta er algjört forgangsverkefni. Að öðrum kosti erum við nauðbeygðir til að láta á þetta reyna sem brot á jafnræðisreglunni,“ segir hann.

Verkalýðshreyfingin gagnrýnir einnig harðlega tillögur sem fela í sér að bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga hækki aðeins um 3,5% þvert á loforð stjórnvalda við gerð kjarasamninga sl. vor. Ekki hefur tekist að leiða þennan ágreining til lykta en verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur munu fara yfir hvort forsendur kjarasamninga halda í næsta mánuði.

Í viðræðunum við stjórnvöld hefur hins vegar náðst árangur í öðrum málum að sögn Gylfa, sem bendir á að fallið hefur verið frá áformum um að láta fjársýsluskattinn einnig ná til lífeyrissjóðanna.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert