Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að fjárhagsáhætta Íslands vegna máls Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) fyrir EFTA-dómstólnum vegna Icesave væri mjög takmörkuð.
ESA tilkynnti í dag, að stofnunin hefði ákveðið að vísa til EFTA-dómstólsins máli vegna meintra brota Íslands á tilskipun um innstæðutryggingar.
Árni Páll átti fund með utanríkismálanefnd Alþingis í morgun um málið og flutti síðan skýrslu á Alþingi þegar þingfundur hófst þar klukkan 11.30. Sagði Árni Páll mikilvægt í þessu máli, að Hæstiréttur hefði nýlega staðfest neyðarlögin svonefndu og kveðið skýrt á um forgang innistæðueigenda. Og stóra krafan í málinu, á annað þúsund milljarða króna, verði greidd af þrotabúi Landsbankans.
„Bretar og Hollendingar eiga vissulega réttmæta kröfu á því að verða ekki fyrir óþarfa tjóni vegna gjaldþrots banka á Íslandi og hruns fjármálakerfis þar. Það hafa þeir ekki orðið. Neyðarlögin tryggja öllum innistæðueigendum forgang. Ef Ísland hefði bara tryggt lágmarksinnistæðurnar og ekki breytt að öðru leyti forgangi innistæðukrafna í bú hinna föllnu banka væru bresk og hollensk stjórnvöld að fá miklu minni fjárhæðir í sinn hlut en þau fá nú. Í tilviki Bretlands eins munar 1 milljarði punda,“ sagði Árni Páll.
Hann sagði að Bretar og Hollendingar ættu hvorki lagalegan né siðferðilegan rétt á því að gera hrunið á Íslandi haustið 2008 að sérstakri féþúfu. „Þeir eiga réttmæta kröfu, henni hefur verið mætt með setningu neyðarlaganna.“
Árni Páll sagði að Íslendingar ættu góðan málstað að verja. En málsvörn Íslands muni einnig þurfa að taka mið af þeirri stöðu, að fjármálakerfi Evrópu sé í mikilli deiglu og eigi í miklum erfiðleikum. Jafnvel í nýjum hugmyndum um skipulag fjármálakerfisins væri því ekki svarað skýrt hvernig ætti að bregðast við þegar heilt fjármálakerfi hryndi.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að málsástæður ESA væru þær sömu, og íslensk stjórnvöld hefðu áður svarað og því kæmi málshöfðunin ekki á óvart.
Hins vegar væri athyglisvert, að nú virtist meint mismunun vera í forgrunni frekar en að ríkisábyrgð hefði verið á innistæðum á Icesave-reikningum Landsbankans.
Bjarni sagði að ekki yrði leyst úr vaxtakröfu innistæðueigenda fyrir EFTA-dómstólnum. Hins vegar verði þar tekist fyrst og fremst á um meinta mismunun og ríkisábyrgð. Það sem mestu skipti nú sé að Íslendingar haldi málstað sínum hátt á lofti.