Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings, segist telja að fólk geri sér ekki grein fyrir því hvað hefði gerst ef greiðslumiðlunin í landinu hefði hrunið haustið 2008. Það munaði stundum bara mínútum að það gerðist. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali Önnu Lilju Þórisdóttur við Steinar Þór í Morgunblaðinu í dag.
Samþykktar kröfur í þrotabú Kaupþings eru tæplega 3.000 milljarðar en Kaupþing hefur þegar greitt 130 milljarða til innistæðueigenda. „Verðmat óveðsettra eigna er aftur á móti um 800 milljarðar á raunvirði, þannig að það blasir við að félagið verði tekið til formlegra gjaldþrotaskipta náist ekki nauðasamningar. Þegar horft er til baka og metið hvernig hefur unnist úr þessu fimmta stærsta þrotabúi sögunnar og miðað við hversu flókið verkefnið var í raun og veru, þá tel ég að það hafi tekist ágætlega til og miklu betur en á horfðist í fyrstu,“ segir Steinar.
Hraðbankar hefðu lokast og ekki hefði verið hægt að greiða með kortum
„Ég held t.d. að fólk geri sér ekki grein fyrir því hvað hefði gerst ef greiðslumiðlunin í landinu hefði hrunið þarna 2008. Það munaði stundum bara mínútum að það gerðist. Þá hefði enginn getað tekið út peninga, enginn hefði getað greitt með korti og seðlarnir voru að verða búnir. Við erum að tala um efnahagslegar hamfarir, svakalegt kaos. Núna finnst fólki fyndið að það hafi verið talað um yfirvofandi skort á matvælum og ýmsu öðru. En við vorum alveg ótrúlega nálægt þessu. Svo ætli maður sé ekki bara ágætlega sáttur við hvernig til hefur tekist á síðustu rúmlega þremur árum en þetta hefði aldrei gengið svona vel án þessa frábæra hóps starfsfólks sem starfaði fyrir skilanefndina á þessum tíma. Mér þykir afar mikið til um það starf sem starfsfólkið lagði á sig oft undir mjög miklu álagi og er þakklátur að hafa haft tækifæri til að vinna með öllu þessu góða fólki.“