Ný brú yfir Hornafjarðarfljót auk vegagerðar og ný brú yfir Ölfusá norðan Selfoss eru á meðal verkefna sem til stendur að ljúka á gildistíma tólf ára og fjögurra ára samgönguáætlana til ársins 2022 sem kynntar voru af Ögmundi Jónassyni, innanríkisráðherra, á blaðamannafundi í dag.
Einnig er gert ráð fyrir breikkun vegarins á milli Selfoss og Hveragerðis og um Hellisheiði, vegaframkvæmdum á sunnanverðum Vestfjörðum og fjölmörgum verkefnum á Suðvesturlandi sem ætlað er að stuðla að bættu umferðarflæði.
240 milljarðar til vegamála
Þá verður sömuleiðis gert átak í lagningu bundins slitlags á tengivegi um land allt fyrir tæpa 6 milljarða króna á áætlunartímabilinu auk þess sem gert er ráð fyrir að hafist verði handa á tímabilinu við breikkun Vesturlandsvegar, lagningu nýs vegar um Dynjandisheiði, Suðurfjarðarveg og Axarveg.
Ennfremur er gert ráð fyrir því í samgönguáætlununum að lokið verði við gerð Norðfjarðarganga árið 2018, Dýrafjarðarganga árið 2022 og sömuleiðis Hjallahálsgöng einnig árið 2022 með þeim fyrirvara að láglendisleið verði ekki fyrir valinu í stað þeirra síðastnefndu.
Tekjur og framlög til verkefna tólf ára samgönguáætlunar eru alls 296 milljarðar króna samkvæmt fréttatilkynningu og verður stærstum hluta þess fjármagns varið til vegamála eða 240 milljörðum króna.