Sameinaðir leikskólar fá nöfn

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í dag nöfn á sex nýja sameinaða leikskóla og grunnskóla.

Heita skólarnir Kelduskóli, Vættaskóli, Ártúnsskóli, Háaleitisskóli, Langholt og Miðborg. Nafnasamkeppni meðal foreldra, starfsfólks og barna fór fram í öllum skólunum sem fengið hafa nýtt nafn.

Sameinaður leikskóli Holtaborgar og Sunnuborgar fær nafnið Langholt en tæplega tvö hundruð tillögur bárust um nýtt nafn á skólann. Nafn nýja leikskólans dregur nafn af bænum Syðra-Langholti sem stóð þar nærri sem Langholtskirkja var reist, en leikskólinn er einmitt þar í holtinu.

Sameinaður leikskóli Barónsborgar, Lindarborgar og Njálsborgar fær nafnið Miðborg sem þykir lýsandi fyrir staðsetninguna í hjarta borgarinnar.

Sameinaður leikskóli, grunnskóli og frístundaheimili í Ártúnsholti fær nafnið Ártúnsskóli líkt og grunnskólinn hét áður með þeim rökum að nafnið byggist á sögu skólans og tengi hann hverfinu.

Sameinaður grunnskóli Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla fær nafnið Háaleitisskóli og dregur nafn af hverfinu sem báðir skólarnir eru í.

Sameinaður grunnskóli Borgaskóla og Engjaskóla fær nafnið Vættaskóli, enda stendur hann í næsta nágrenni við hinar friðlýstu Vættaborgir í næsta nágrenni skólanna. Þá fylgir nýju nafni ósk um að allar góðar vættir vaki yfir starfi hins sameinaða skóla. Starfsstöðvarnar tvær munu ganga undir nöfnunum Borgir og Engi.

Sameinaður Korpu- og Víkurskóli fær nafnið Kelduskóli og dregur nafn af örnefnum í næsta nágrenni og einnig vísar það til uppsprettu visku og þekkingar. Starfstöðvarnar tvær munu ganga undir nöfnunum Vík og Korpa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert