Nýtt frumvarp ríkisvaldsins gerir ráð fyrir nýrri skattheimtu á lífeyrissjóði sem þýðir jafnframt að skerða þarf réttindi sjóðfélaga í sjóðnum. Þetta kemur fram á vef Eflingar.
„Fjármálaráðherra lítur svo á að samkomulag sé um það við verkalýðshreyfinguna að lífeyrissjóðirnir fjármagni að hluta vaxtabætur til að mæta kostnaði lántakenda húsnæðislána eftir efnahagshrunið. Þessu hefur verkalýðshreyfingin mótmælt harðlega og bendir Efling m.a. á að tæplega helmingur félagsmanna Eflingar búi í eigin húsnæði og engar forsendur séu til að skattleggja lífeyrisréttindi þessa hóps sérstaklega.
Það er með öllu óásættanlegt að ríkisvaldið skuli velja þá leið að rýra réttindi okkar félagsmanna á þeim forsendum að þeir þurfi að leggja til fjármagn til þess að greiða niður húsnæðislán. Nýleg viðhorfskönnun Gallups sýnir að einungis um 45% félagsmanna Eflingar býr í eigin húsnæði og því ekki um niðurfellingu eða lækkun á lánum í þeim mæli sem að ríkisvaldið vísar til.
Ríkisvaldið ætlar hér að höggva í lífeyrissparnað sem að félagsmenn hafa áunnið sér í samræmi við umsamda kjarasamninga en bæta upp skerðinguna hjá opinberum lífeyrissjóðum og alþingismönnum með hinni hendinni þar sem ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á hallarekstri opinberu sjóðanna, segir á vef Eflingar.