Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að það bíði nú Íslendinga að taka til ýtrustu varna sinna í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA um að höfða mál gegn Íslandi kæmi ekki á óvart.
Hann sagði að þær upplýsingar, sem Íslendingar hefðu komið á framfæri um að eignir í búi Landsbankans nægi fyrir öllum forgangskröfum, hafi greinilega ekki nægt Eftirlitsstofnun EFTA.
Ljóst væri að sigur væri ekki í höfn en áhættan hefði minnkað með batnandi eignastöðu bús Landsbankans. Það sýndi að tekin hefði verið rétt ákvörðun árið 2009 um að eignir Landsbankans verði látnar borga þennan ólánsreikning að langmestu leyti.
En ekki væri horft framhjá því, að Ísland væri nú á leið fyrir dóm vegna brota á evrópskum reglum. Því væri mikilvægt að horfa til þess, að uppi hefði verið lagalegur ágreiningur og eðlilegt væri að hann gengi til dómstóla. Íslendingar væru síðan samningsbundnir til að hlíta dómsniðurstöðu þegar hún lægi fyrir.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að á sínum tíma hefði staðið til að meina Íslendingum að fara með málið fyrir dómstóla en Íslendingar hefðu þá eins og nú talið að hefðu lagalegan rétt.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að samstaða væri mikilvæg og að fara ekki í gömlu Icesave-skotgrafirnar. „Látum Icesave ekki verða Tröllann fyrir þessi jól eins og þau síðustu,“ sagði Birgitta.