Árin 2008 og 2009 greiddi skilanefnd Kaupþings allar forgangskröfur innistæðueigenda í erlendum útibúum Kaupþings, um 130 milljarða króna, að sögn Steinars Þórs Guðgeirssonar, formanns skilanefndar Kaupþings.
„Þetta gleymist oft í allri Icesave-umræðunni,“ segir Steinar. „Auðvitað voru öll þessi lönd að hugsa um sína innistæðueigendur. Yfirleitt vildu þau taka eignir Kaupþings sem þar voru staðsettar og selja þær á hverju því verði sem þeir gátu fengið fyrir þær til að borga innlánin í sínu landi. Við þurftum að standa fast á því að það gengi ekki og sem betur fer tókst okkur að klára þetta verkefni án þess að það færi í sama farveg og Icesave-málið,“ segir Steinar í viðtali við Morgunblaðið í dag.
Að sögn Steinars var lögð rík áhersla á það strax í upphafi að eignir yrðu ekki látnar af hendi og þær seldar á afslætti, til að greiða innlánin. „Við kröfðumst þess að fá fullt verð fyrir þessar eignir, við gætum ekki greitt innlánin núna og fólk yrði að sýna smáþolinmæði. Í þetta fór gríðarleg vinna, t.d. leystum við mál Kaupþings í Finnlandi þannig að við fengum lán hjá þremur einkabönkum og veðsettum eignir á móti. Í Noregi var settur skiptastjóri yfir útibúið. Þar var reynt að selja verðmætar eignir yfir nótt og eignir voru frystar, en okkur tókst sem betur fer að semja um málin og stöðva brunaútsölur á eignum. Það borgaði sig heldur betur, því að mánuðum síðar seldum við sumar af þessum eignum á fjórfalt hærra verði.