Magnús Þór Ásgeirsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, auglýsir eftir atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar í viðtali við blaðið Akureyri í dag þar sem hann gefur ríkisstjórninni falleinkunn í atvinnumálunum.
Það sé ekki beint hlutverk ríkisstjórnar að búa til atvinnu. Hinsvegar eigi hún ekki heldur að þvælast fyrir og koma í veg fyrir atvinnuuppbyggingu.
Lögbrot ráðherra
„Ég hef séð í hælana á fjárfestum sem voru tilbúnir að koma hingað með fjárfestingar og atvinnustarfsemi, vegna umræðu ríkisstjórnarflokkanna um þjóðnýtingu fyrirtækja og eigna. Geðþótta ákvarðanir, lögbrot ráðherra og endalausar og yfirvofandi breytingar á skattalögum gera það að verkum að fyrirtæki treysta sér ekki til að fjárfesta á Íslandi í dag. Nýjasta upphlaupið vegna kolefnisskatts segir allt sem segja þarf,“ segir Magnús Þór.
Útlendingahræðsla og uppblásinn þjóðernissósíalismi
Um Huang Nubo málið segir hann meðal annars: „Ég hef bara séð vanþekkingu, útlendingahræðslu og uppblásinn þjóðernis sósíalisma. „Við erum að tala um stórfellda uppbyggingu í ferðaþjónustu hérna. Ég get í raun skilið rökin fyrir því að vera á móti stóriðju, en að vera á móti uppbyggingu á ferðaþjónustu í miðri eyðimörk skil ég ekki fyrir mitt litla líf. Þarna brást meint atvinnustefna stjórnvalda gjörsamlega.“
Fann ástina í Reykjavík
Magnús hefur starfað í tíu ár hjá AFE en lætur af störfum um áramótin en hann segir persónulegar ástæður fyrir uppsögninni. „Fyrir því eru persónulegar ástæður. Í raun lét ég hjartað ráða för, því ég fann ástina í Reykjavík og ákvað þess vegna að flytja. Ég var ekki viss um hvað tæki við þegar ég ákvað þetta en er núna búinn að finna draumastarfið.
Vaki hf. bauð mér starf sem sameinar áhuga minn á stangveiði og menntun mína og reynslu á alþjóðlegum vettvangi en ég er að fara að markaðssetja River Watcher í Evrópu; tæki sem byggir á íslensku hugviti og tækni til að skanna, telja og mynda fiska sem ganga í ár. Fjölmargar veiðiár hafa sett upp þennan búnað sem gerir fólki kleift að sjá nákvæmlega fiskgengd í ám eftir stærð, tegund og kyni fiska.“